Skip to Content

Vel sótt ráðstefna um vistvænt skipulag

Fortíðarhyggja eða framtíðarsýn- sjálfbært byggðamynstur í íslensku þéttbýli, var yfirskrift ráðstefnu sem Vistbyggðarráð og Skipulagsfræðingafélagið stóðu fyrir þann 16. maí síðastliðinn.  Ráðstefnan var vel sótt, enda viðfangsefnið spennandi og eitthvað sem snertir daglegt líf margra, eins og reyndar skipulagsmál almennt. Á ráðstefnunni var sérstaklega fjallað um vistvænt skipulag með áherslu á endurhönnun og þróun byggðar í þéttbýli. Undanfarin misseri hefur farið fram nokkur umræða um vistvænt skipulag eða öllu heldur ýmsa lykilþætti því tendu s.s. samgöngur og þéttingu byggðar en afar mikilvægt er að huga að góðu samspili þessara þátta þegar gera á gott skipulag.

Það var Stefán Thors, sem nýverið tók við sem ráðuneytisstjóri Umhverfisráðuneytisins sem setti ráðstefnuna.  Í upphafi  lagði hann út frá orðum Einars Benediktssonar,  ,,Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja" – en það er jú ávallt nauðsynlegt að horfa aftur til að bæði greina og skilja betur þau verkefni sem liggja fyrir okkur á þessu sviði sem öðru. Stefán nefndi að tíðarandinn hefði breyst mikið frá því  að fyrsta aðalskipulag Reykjavíkur leit dagsins ljós á snemma á 7. áratugnum.  Í dag væru lykilorðin, fjölbreytt notkun borgarrýma, samþætting og endurnýting.  Annað viðhorf ríkir í dag til dæmis varðandi niðurrif eldri bæjarhluta, og ekki þykir lengur sjálfsagt að taka ótamarkað rými undir samgöngumannvirki, heldur er horft á fjölbreyttari lausnir  í samgöngumálum - bíllinn er ekki lengur útgangspunktur skipulags.
Í nýlegri tillögu að lansskipulagsstefnu, sem reyndar náðist ekki að samþykkja fyrir þinglok, er aðaláherslan á dreifbýli og hálendi en það skortir nokkuð á að mótuð sé heildræn stefna um byggðamótun í þéttbýli, en hér áður fyrr þótti þéttbýlismyndun heldur óæskileg þróun á móts við það skipulag sem hafði ríkt um aldir. Stefán nefndi að sveitastjórnir hefði mikið ábyrgðahlutverk varðandi mótun þéttbýlisstaða, og væri til að mynda búsetuform sem stundum er kallað ,,þéttbýli í sveit“ eða öðru nafni búgarðabyggð, afar óvistvænn kostur þegar horft er til aðgengis og nýtingu grunnviða.
Við skipulag þéttbýlis í dag, á bíllinn ekki að vera útgangspunkturinn. Við þurfum að byggja ,,innávið“, nýta betur grunngerð og grafa bílinn niður þar sem þess er kostur.  Það þarf að standa styrkum fótum gegn, oft á tíðum, háværum kröfum um að aðgengi sé ávallt miðað við bílinn. Þess vegna er mikilvægt að ríki, sveitarfélög og félagasamtök taki höndum saman og marki skýra stefnu í byggðrþróun í þéttbýli. Hann nefndi að ráðneytið væri mjög jákvætt gagnvart slíku samstarfi og fagnaði sérstaklega frumkvæði Vistbyggðarráðs og Skipulagsfræðingafélagsins varðandi það að vekja máls á vistvænni skipulagsgerð.
Næstur á dagskrá var aðalfyrirlesari ráðstefnunnar, sænski arkitektinn og borgarhönnuðurinn Klas Tham.  Erindi hans var langt og ítarlegt, en yfirskrift þess var, On Sustainability and the Humane in Architecture -Bo01, in the Western Harbour of Malmö.  Klas fjallaði í upphafi um arkitektúr og hönnun manngerðs umhverfis í breiðu samhengi og lagði áherslu á sjónræn áhrif í skipulagi, fókuspunkta, grænan gróður í borgarhönnun og skilgreinda  áningastaði í borgarrýminu. Þá lagði hann mikla áherslu á borgarlandslagið sem félagslegt rými sem þyrfti að gæta vel að. Fólki þyrfti að líða vel í sínu nánasta umhverfi og þarf ávallt að gæta að skala bygginga og því sé alls ekki sjálfgefið að t.d. skali á gömlum iðnaðarsvæðum, sem eru ganga í endurnýjun lífdaga,  endurspeglist í enduruppbyggingunni, því það þarf ávallt að miða út frá þörfum íbúa ef áætlunin er að skapa vistlegt og aðlaðandi umhverfi fyrir fólk.  Hann nefndi ýmsa höfunda sem lagt hafa þessi sjónarmið til grundvallar undanfarna áratugi, þ.a.m. Peter F. Smith sem hefur skrifað ýmsar bækur, eins og Architecture and the Human Dimension (1979), The Dynamics of Urbanism(1974)  og Syntax of Cities (1997). Í raun og veru er mikill samhljómur í þeim kenningum sem voru uppi á 8. áratug síðustu aldar og hugmyndum um vistvænt skipulag í dag. Við erum enn að skipuleggja fyrir fólk og það er nú sem aldrei fyrr mikilvægt að huga að mannlega þættinum í skipulagsgerð.  Arkitektar og borgarhönnuðir geta með skipulagi haft mikil áhrif á bæði hegðun og líðan fólks og þarf  því ávallt að vanda vel til og er skipulag því mikilægt samfélagslegt stjórntæki sem þarf að virða og fara vel með. Klas lagði einnig ríka áherslu á mikilvægi grænna svæða fyrir heilsuna og hefði vatn einnig mjög jákvæð áhrif almennt,hvort sem það væri aðgangur eða sýn út á sjó eða aðeins hreyfanlegt vatn. Einnig er mikilvægt í allri skipulagsgerð að gera ráð fyrir hinu sjónræna og skapa uppbrot í línum og sjónarhornum, eða  e.k. skipulagða óreiðu (complex order) í borgarlandslaginu.   
Því næst fór Klas Tham yfir helstu áherslur og framkvæmd Bo01 hverfisins í Malmö sem byggðist upp í kringum aldamótin 2000, en nú eru síðari áfangar í byggingu. Það kom m.a. fram að nær allar byggingar hafi verið hannaðar með fjölbreytta notkun í huga, og var t.a.m. strax í upphafi gert ráð fyrir að hægt væri að hafa verslunarrými á fyrstu hæðum,  þrátt fyrir að þær væru innréttaðar sem íbúðir með mikla lofthæð. Þannig var reynt að horfa langt fram í tímann og tryggja möguleika á þróun hverfis í samhengið við uppbyggingu vesturhafnarinna í heild sinni.
Sýningarsvæði Bo01 var frá upphafi ætlað sem framtíðarheimili nýrra íbúa og var lóðum úthlutað til verktaka sem völdu sér hönnuði sem þurftu að fá samþykkir aðalhönnuðar og sýna fram á að þeir myndu byggja i samræmi við þær kröfur sem settar voru fram í skipulaginu, einkum á sviði umhverfismála.  Strax var mikil ásókn í svæðið, bæði að hálfu verktaka og íbúa og hefur það vaxið að vinsældum og vildi Klas meina að það margborgaði sig að gera kröfur um gæði og útfærslur strax í upphafi, stífan ramma sem framkvæmdaðilar aðlöguðu sig að.
Fyrirkomulagið var með þeim hætti að félag var stofnað um verkefnið (sem Malmöborg kom að ásamt fleirum), valdir voru verktakar sem síðar gátu sótt um lóðir. Haldin voru námskeið, og settir á fót e.k. rýnihópar og sérstök áhersla lögð á gæðamál. Verktakar og allir þeir sem komu að uppbyggingu þurftu að fara eftir stífum reglum og viðmiðum og hafði stjórn verkefnisins ríka heimild til að gera ákveðnar kröfur til framkvæmdaraðila og höfu t.a.m.  úrslitavald um það hvaða hönnuðir urðu fyrir valinu. Hvatinn til uppbyggingar var fyrst og fremst sýninging sjálf og tækifæri verktaka til að selja íbúðir í tengslum við hana. Það lá því á að klára framkvæmdir fyrir tilskilin tíma, sem um leið tryggði það að hverfið byggðist hratt og jafnt upp og auðvelt var að hafa eftirlit með framkvæmdum.
Bo01 hverfið hefur verið eftirsótt íbúðarsvæði og hafa verið gerða rannsóknir á markaðsvirði íbúða í þessu vistvæna hverfi, sem sýna fram á að aukin gæði hafa til muna aukið virði þeirra. Það má rekja til áherslu á vistænar og endingargóða lausnir sem byggja ekki síst á því að auka sveigjanleika, en gæðin tryggja að hverfið dettur ekki niður í verði þegar kominn er tími á endurnýjun, sem aftur á  móti gæti haft talsverð áhrifa á íbúasamsetningu og þörfum fyrir þjónustu.
Óhætt er að segja að verkefnið í heild sinni hafi tekist vel þótt að ekki hafi allt farið nákvæmlega eins og til stóð, en nú þegar er hafin uppbygging á síðari áföngum í vesturhöfninni með sjálfbærnimarkmið að leiðarljósi, enda hefur það haft mikil áhrif á fýsileika svæðisins og hefur Malmöborg hlotið alþjóðlega athygli út á þetta einstaka verkefni um vistvæna endurhönnun borgarhluta  þar sem grófum iðnarhluta borgarinnar var breytt í eftirsótt og vistvænt íbúðarhverfi. Hér má skoða  glærur sem Klas Tham notaði í fyrirlestri sínum (Fyrirlestur um sama efni,  fluttur í Lisbon 2010).


Næst á dagskránni var Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt og verkefnisstjóri þróunarverkefna hjá  Búseta.
Hennar erindi bar yfirskriftina, Frá hugmynd til heildarframkvæmdar, Er svigrúm fyrir kröfur um vistvænt skipulag í þróunarverkefnum á vegum verktaka og framkvæmdaraðila á íslenskum byggingarmarkaði?  Niðurstaða hennar var sú að það væri vissulega svigrúm til staðar á íslenskum markaði, en þó þyrfti ýmislegt að koma til sem flýtt gæti þeirri þróun, s.s. fjárhagslegir hvatar hjá opinberum aðilum.
Guðrún sagði m.a. frá vistvænni nálgun  í nýframkvæmdum hjá Búseta og þá sérstaklega varðandi uppbyggingu íbúða í Einholti, við Reynisvatnsás og Laugarnesveg þar sem þess er sérstaklega gætt að farið sé eftir gæðastöðlum, stjórnun framkvæmda sér markviss og að hönnun og nýting svæða sé góð og vönduð og taki til þátta eins og hljóðvistar, dagsbirtu, ræktun  og  samgangna. Leiðarljós  fyrir hvert verkefni er að það sé: vistvænt, snjallt, hagkvæmt og fallegt, og  byggi um leið á sjálfbærinstoðunum þremur. Í erindi sínu kom Guðrún inn á það að það væri mikilvægt að gera sér grein fyrir hver hvatinn sé til að byggja vistvænt og þá hvaða hvatar henti hverju sinni. Hún benti á 3 leiðir sem flýtt gætu fyrir auknum áherslum á vistænar lausnir. Sjá erindi Guðrúnar hér.

Hjálmar Sveinsson, varaformaður Skipulagsráðs Reykjavíkur og formaður Faxaflóahafna sagði frá uppbyggingaráformum á hafnarsvæðinu og fór yfir þróun hafnarinnar síðustu áratugi, í erindi sínu, Endurhönnun borgarhluta / hafnarsvæðið í Reykjavík.  Þrátt fyrir að hafa tekið miklum breytingum þá er Reykjavíkurhöfn enn stærsta sjávarútvegshöfn landsins og þar starfa mörg fyrirtæki í fiskiðnaði og tengdum greinum. Þróun undanfarin ár hefur verið sú að æ fleiri ferðaþjónustufyrirtæki og veitingastaðir hafa komið sér fyrir á hafnarbakkanum og hefur hugtakið hafnsækin starfsemi fengið víðtækari merkingu en áður og er nú talað um hafnsækna ferðaþjónustu. Hjálmar fór yfir skipulagshugmyndir og tillögur úr samkeppni um þróun slippsvæðisins en einnig fór hann  yfir það hvaða hlutverk friðaðar byggingar á hafnarsvæðinu spila í heildarmyndinni og lagði áherslu á að það væri mikilvægt að flétta þeim inn í  nýtt skipulag og styðja á þann hátt við sögu hafnarsvæðisins um leið og það er þróað í tak við breyttar áherslur í nútímanum.  Í deiliskipulagstillögur fyrir Vesturbugt er gert ráð fyrir blandaðri byggð á gömlu iðnaðarsvæði með talsvert miklum þéttleika og verður lögð áhersla á þátttöku íbúa í skipulagsferlinu. Alls verði 20% íbúða á svæðinu leiguíbúðir. Áhersla verið á tengingu hverfisins við miðborgina og gangandi og hjólandi vegfarendur settir  í forgang, hugað að ofanvatnslausnum og vistvænni hönnun almenningsrýma- sem sagt unnið út frá þeim viðmiðum sem almennt eru notuð fyrir vistvænt skipulag. Það verður spennandi að fylgjast með þessari þróun sem í raun er í miklu samræmi við þróun sams konar svæða í nágrannalöndum okkar, þótt skalinn sé  e.t.v. annar.  Nú erum við ekki lengur að vinna með annað hvort stefnu hins algerra niðurrifs eða uppbyggingar, heldur er nú unnið með það að samþætta gamalt og nýtt og að efla og auka fjölbreytni í borgarlandslaginu.  Sjá erindi Hjálmars

Síðust á dagskrá var Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur og fjallaði hún um matvælaframleiðslu í þéttbýli, en erindi hennar bar titilinn, Matvælaframleiðsla í þéttbýli - skemmtilegt hobbý eða mikilvægt skiuplagsmálefni. Salvör byrjaði á því að setja borgarbúskap í sögulegt samhengi, en fyrirbærið er síður en svo nýtt af nálinni. Hins vegar var þéttbýlismyndun seint á ferð hérlendis, og því var  búskapur lengi vel skilgreindur sem hluti af því sem við köllum sveitarmenningu og voru skilin á milli hennar og svo borgarinnar mjög skýr og í raun þótti ekkert æskilegt að flétta þessu tvennu saman. Salvör fór yfir nokkur dæmi um ræktun í borgarlandinu á síðustu öld og setti í samhengi við alþjóðlega þróun og hugmyndafræði eins og garðborgahreyfinguna í Bretlandi um aldamótin 1900. Hér á landi voru einnig hugmyndafræðingar eins og Guðmundur Hannesson landlæknir sem höfðu mikinn skilningin á mikilvægu hlutverki garðræktar í bæði skipulagslegu- og þó ekki síst heilsufarslegu tilliti.
Salvör lagði áherslu á að matvælaframleiðsla í þéttbýli væri ekki afturhvarf til fortíðar heldur væri um að ræða aðlögun að breyttum tímum með nýrri nálgun og tækni, en er þá bæði átt við eiginlega ræktun matvæla heldur einnig húsdýrahald og ýmis konar smáiðnað tengdan matvælaræktun til staðbundinnar framleiðslu og neyslu sem dregur úr flutningi með matvæli heimshorna á milli sem óhjákvæmilega dregur úr næringargildi matvöru og eykur loftslagsmengun. Þá má gera ráð fyrir að æ stærri hlutfall jarðarbúa muni búa í borgum að nokkrum áratugum liðnum og er mikilvægt að horfa á matvælaframleiðsu í tengslum við heilsufarslega-, hagræna- ,félagslega og vistfræðilega þætti.  Aukin ræktun í þéttbýli getur ekki aðeins styrkt umhverfisvitund heldur er einnig liður í því að efla fæðuöryggi. Erindi Salvarar.

Til stóð að Ásdís Hlökk Theodórsdótti skipulagsfræðingur sem fer fyrir starfshóp Vistbyggðarráðs um vistvænt skipulag myndi kynna  bækling sem stendur til að gefa út í byrjun sumars, en vegna óviðráðanlegra ástæðna var ákveðið að fresta þeirri kynningu fram á haustið en hægt er að skoða glærukynningu vegna útgáfunnar hér.

Það var svo Hrafnkell Proppé, skipulagsfræðingur og stjórnarmaður í Skipulagsfræðingafélagi Íslands og Svæðisskiplagsstjóri sem lokaði ráðstefnunni með þeim orðum að það væri ástæða til að vera bjartsýnn varðandi þróun skipulags á Íslandi og nýjar og vistænar áherslur væru spennandi  og gæfu tilefni til nýrra nálganga við skipulagsgerð. En stærstu  skipulagsverkefni næstu ára munu felast í  endurskipulagningu eldri byggðar sem um leið  stuðlar að enn betri nýtingu grunnviða  með áherslum á fjölbreytileika og vistvænar aðferðir við skipulagsgerð.

Vistbyggðarráð vill þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi ráðstefnunnar en ekki síst þeim fjölmörgu gestu sem sýndu málefninu áhuga.  
Að þessu sinni var ráðstefnan unnin í samvinnu við Skipulagsfræðingafélag Íslands og verður nú bráðlega farið að huga að þema næstu ráðstefnu sem haldin verður að ári liðnu.
Útgáfa bæklings um vistvænt skipulag verður auglýst sérstaklega þegar nær líður útgáfu.